Það verð sem kúabændur fá að lágmarki fyrir mjólk sína hefur ekki breyst í næstum tvö ár vegna þess að verðlagsnefnd búvara hefur ekki verið starfhæf. Það sama gildir um heildsöluverð á mjólkurafurðum.

Verðlagsnefnd búvara á að vera skipuð í júní ár hvert. Samkvæmt lögum eiga samtök launþega, Bændasamtök Íslands og samtök afurðastöðva fulltrúa í nefndinni. Ef einhver þessara samtaka tilnefna ekki fulltrúa á ráðherra að gera það í staðinn og skal nefndin vera fullskipuð 1. júlí ár hvert. Á síðasta ári tilnefndu stéttarfélögin ASÍ og BSRB ekki fulltrúa í verðlagsnefnd. Ráðherra félagsmála, Eygló Harðardóttir, skipaði ekki fulltrúa í þeirra stað.

Því hefur nefndin ekki starfað undanfarin ár. Heildsöluverði á mjólk og lágmarksverði til bænda var síðast breytt 1. október 2013. Verðlagsnefndin fundaði síðast 2. apríl 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .