Fjöldi opinberra starfsmanna í apríl síðastliðnum var 37.400. Hefur opinberum starfsmönnum fjölgað um 8.700 frá árinu 2000. Að meðaltali hefur því starfsmönnum, sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum, fjölgað um 966 á hverju ári. Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

„Í apríl 2009 voru 18.000 stöðugildi í dagvinnu hjá ríkinu samkvæmt launavinnslukerfi ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var fjöldi stöðugilda hjá sveitarfélögum rúmlega 19.400 á sama tíma. Samtals voru stöðugildin því 37.400,“ segir í svari fjármálaráðherra.

„Í sama mánuði árið 2000 voru stöðugildi í launavinnslukerfi ríkisins 14.000 og eru þá ótalin tæplega 2.800 stöðugildi sem færðust síðar í launavinnslukerfið, sbr. fyrrgreint. Í apríl 2000 var fjöldi stöðugilda rúmlega 14.700 hjá sveitarfélögum, samkvæmt sömu heimildum og að framan greinir. Samtals voru stöðugildin þá 28.700. Hlutfallsleg aukning á tímabilinu er því 27%, 29% hjá ríkinu og 32% hjá sveitarfélögum. Að teknu tilliti til tilfærslna milli kerfa hjá ríkinu á tímabilinu er samtals aukning um 19%,“ segir í svarinu.