*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 27. maí 2021 11:03

Opna aftur og ráða 112 starfsmenn

Bláa Lónið hefur ráðið til sín 112 nýja starfsmenn á undanförnum vikum og gerir ráð fyrir enn fleiri ráðningum á næstunni.

Ritstjórn

Frá og með morgundeginum, 28. maí, mun Bláa Lónið opna aftur öll upplifunarsvæði sín en starfsemi félagsins hefur að mestu legið niðri frá 8. október í fyrra vegna Covid. Opið verður alla daga vikunnar.

Bláa Lónið hefur þegar ráðið til sín 112 nýja starfsmenn á undanförnum vikum og gerir ráð fyrir að fjölga þeim enn frekar á komandi vikum og mánuðum. Fyrirtækið sagði upp 164 manns í mars á síðasta ári eftir að Bláa Lónið lokaði í upphafi faraldursins. Um tveimur mánuðum síðar bættust 403 uppsagnir við. Í október í fyrra var 26 til viðbótar sagt upp og voru þá rúmlega hundrað starfsmenn eftir hjá fyrirtækinu.

Samhliða opnuninni kynnir félagið nú Sumarkort Bláa Lónsins sem veitir einstaklingum og fjölskyldum aðgang og tækifæri til að njóta  reglulega alls þess sem Bláa Lónið hefur upp á að bjóða. Kortið veitir ótakmarkaðan aðgang að Bláa Lóninu í allt sumar og gildir út september næstkomandi.

„Við hjá Bláa Lóninu horfum björtum augum fram á við og fögnum íslensku ferðasumri á sama tíma og ferðaþjónustan er almennt að taka við sér. Eftir fordæmalausan vetur er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að huga að líkama og sál og hafa það reglulega notalegt í allt sumar. Með Sumarkorti Bláa Lónsins erum við að leggja okkar að mörkum til að svo megi verða,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, í fréttatilkynningu.

Til upplifunarsvæða Bláa Lónsins í Svartsengi teljast Bláa Lónið og Retreat Spa, fjórir veitingastaðir, tvö hótel, rannsóknar- og þróunarsetur auk verslunar.