Tækniráðningar ehf., alþjóðlegt ráðningafyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðningum á sérfræðingum innan tæknigeirans, hefur opnað ráðningavefinn TalentLink.Me .+

„Vefurinn nýtir upplýsingar vinsælla samfélagsvefja eins og LinkedIn og Facebook og forritarasamfélaga eins GitHub og Stack Overflow til að búa til markað með tæknimenntuðu fólki. Mikill skortur er á vel menntuðu tæknifólki í heiminum um þessar mundir,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Tækniráðningar undirrituðu í byrjun þessa árs rammasamning til tveggja ára við alþjóðlegu bankasamstæðuna UniCredit Group en heildarverðmæti samningsins nemur allt að 100 milljónum króna. Fyrirtækið hefur einnig gert samning við og sinnt ráðningum fyrir Amazon.com í Austur-Evrópu.

„Tilgangurinn með stofnun TalentLink.Me er að gera ráðningarmarkað tæknifólks fullkomnari en jafnfræmt þægilegri fyrir báða aðila. Það er mikill skortur á fólki og fyrirtækin eru tilbúin að leita víðar eftir aðilum með rétta þekkingu, en um leið mun skráning á vefinn afla hæfum sérfræðingum betri tilboða og kjara en þeir kannski átta sig á að þeim standi til boða. Við höfum starfað í þessum geira núna í tvö ár og ráðið fyrir áhugaverð fyrirtæki í nokkrum ólíkum löndum og við sjáum að eftirspurnin er ekkert að minnka. Raunar spáir Evrópusambandið því að eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki geti þrefaldast í álfunni á næstu 5 árum og að fjölgun tæknistarfa innan sambandsins fari úr 500 þús í 1,4 milljónir,“ segir Kristján Már Gunnarsson, framkvæmdastjóri Tækniráðninga.