Splitti ehf. hóf fyrr á þessu ári að bjóða upp á þjónustu sem gerir ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að taka við greiðslum á einfaldan hátt frá kínverskum ferðamönnum. Boðið er upp á tengingu beint inn á bókunarkerfi frá Bókun og GoDo gististaðir. Að sögn Sturlu Þórhallssonar, stofnanda og framkvæmdastjóra félagsins, felst sérstaða Splitti í því að félagið býður upp á heildargreiðslulausn sem getur tekið við greiðslu í gegnum AliPay, Wechat pay, Visa og Mastercard. Þessi greiðslulausn sé tengd beint við bókunarkerfið, sem einfaldi ferðaþjónustufyrirtækjum að nálgast bókanir frá ferðamönnum út um allan heim. Hann segir að ofangreind lausn hafi fengið góðar móttökur frá innlendum ferðaþjónustufyrirtækjum og að það bætist hratt við viðskiptavinahóp fyrirtækisins.

„Það má segja að við séum að opna dyr fyrir Kínverja sem gerir þeim kleift að skipuleggja ferðir til Íslands sjálfir. Áður gátu þeir nær eingöngu bókað ferðir hingað til lands í gegnum ferðaskrifstofur. Það er ekkert mjög algengt að fólk sé með Visa eða Mastercard í Kína og því reyndist mörgum ómögulegt að panta beint í gegnum síður flugfélaga, hótela o.s.frv. En nú gerum við Kínverjum kleift að bóka og borga með sinni greiðslulausn í gegnum heimasíður fyrirtækjanna. Við erum að vinna í að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og að gera það einfaldara fyrir kínverska ferðamenn að koma inn í landið."

„Það rann upp fyrir okkur hvað það er mikið af íslenskum fyrirtækjum sem eru í vandræðum með þessi kerfi. Þetta er orðið mjög flókið og það er verið að vinna vinnuna á mjög mörgum vígstöðvum í dag. Okkar fyrsti vinkill er kínverski ferðamaðurinn. Kínverjar eru öðruvísi viðskiptavinir og menningin þeirra er talsvert frábrugðin evrópskri menningu. Upplýsingaflæðið frá íslenskum fyrirtækjum út til Kína er svolítið eins og hvísluleikur - efnið hefur farið í gegnum nokkrar þýðingar og þegar það kemst loks til Kínverjans þá er ekki verið að segja það sem fyrirtækin vilja. Það er betra ef þetta kemur beint frá söluaðilanum til þess að Kínverjar fái sem réttasta mynd af því sem þeir eru að fara að kaupa. Kínverjar sem eru að koma til Íslands fá oft rangar upplýsingar og sjá t.d. auglýsingar sem gefa til kynna að þeir megi gera nánast hvað sem er," segir Hannes Baldursson, stofnandi og tæknistjóri Splitti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .