Stjórnvöld í Kína opnuðu fyrr í dag fyrir viðskipti erlendra fjárfesta með kínversk skuldabréf. Þar með opnast þriðji stærsti skuldabréfamarkaður heims fyrir alþjóðlegum fjárfestum. Talið er að stærð markaðarins nemi 9.000 milljörðum dollara en einungis 2% eru í eigu erlendra aðila. BBC greinir frá.

Til að byrja með munu bankar, tryggingafélög og fjárfestingarsjóðir geta keypt skuldabréfin í gegn um Hong Kong. Kínversk stjórnvöld höfðu ákveðið að viðskiptin myndu hefjast í dag þar sem síðastliðinn laugardag voru 20 ár liðin frá því að Bretar afhentu Kínverjum yfirráð yfir Hong Kong.

Ákvörðunin um að veita erlendum fjárfestum aðgang að kínverska skuldabréfamarkaðnum í nýjasta skref stjórnvalda þar í landi til að opna landið fyrir erlendri fjárfestingu. Á síðasta ári var erlendum fjárfestum veit heimild til að eiga viðskipti með hlutabréf um 900 fyrirtækja í kauphöllinni í Shenzen í gegn um Hong Kong. Árið 2014 fengu erlendir fjárfestar einnig aðgang að kauphöllinni í Sjanghæ í gegn um Hong Kong.