Ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hefur ákveðið að leggja ekki til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að opna tollkvóta fyrir lambahryggi þar sem skilyrði búvörulaga voru ekki uppfyllt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu .

Eins og Viðskiptablaðið hefur farið ítarlega yfir lagði nefndin til í liðinni viku að opnað yrði á tollkvóta fyrir hryggi fram til 30. ágúst þar sem innlendir framleiðendur gætu ekki annað eftirspurn. Áður en ráðherra tók afstöðu til tillagna nefndarinnar fékk nefndin upplýsingar um breytta birgðastöðu framleiðenda. Í ljósi þeirra kom í ljós að skilyrði laganna var ekki uppfyllt.

„Samkvæmt lögunum telst framboð ekki nægjanlegt ef varan er ekki til stöðugrar dreifingar eða áætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% magni af eftirspurn a.m.k. tveggja leiðandi ótengdra dreifingaraðila og er ekki fáanleg frá a.m.k. tveimur framleiðendum,“ segir í tilkynningunni.

Rannsókn liðinna daga leiddi í ljós að birgðastaða hefði breyst og að ákvörðun hefði verið tekin um að hefja slátrun fyrr.