Gulleggið hefur nú opnað fyrir umsóknir í keppnina sem fer fram í haust. Keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd. Sigurvegari keppninnar fær milljón króna að launum. Gulleggið varð tíu ára í vor og hafa 76% þeirra fyrirtækja sem stofnuð hafa verið í kjölfar þátttöku í Gullegginu enn starfandi í dag.

Mörg þeirra fyrirtækja sem tekið hafa þátt eru orðin að stórfyrirtækjum í dag. Sem dæmi um fyrri þátttakendur má nefna Meniga, Karolina Fund, Clara, eTactica, Nude Magazine, Róró -Lulla doll, Pink Iceland og Cooori.

Sigurvegarar Gulleggsins í vor á 10 ára afmæli keppninnar voru Safe Seat, fjaðrandibátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjólagi. Í kjölfar Gulleggsins komst Safe Seat inní Startup Reykjavík, viðskiptahraðal Icelandic Startups sem fór fram í sumar. Viðskiptablaðið tók nýverið stöðuna á forsvarsmönnum Safe Seat.

Nýútskrifaðir hönnuðir fá kost að hanna verðlaunagripinn

Á hverju ári er leitað til nýútskrifaðra vöruhönnuða úr Listaháskóla Íslands til þess að hanna verðlaunagripinn, gegn greiðslu. Þessi hefð hefur sett skemmtilegan svip á keppnina í gegnum árin. Sjálft Gulleggið hefur því tekið hinum ýmsu myndum, hvort sem það er úr gleri, kopar, viði eða jafnvel vír þá hefur það alltaf vakið mikla lukku.

Bakhjarlar Gulleggsins eru Landsbankinn, KPMG; Marel, NOVA, ADVEL Lögmenn og Alcoa Fjarðarál.