Íslandsbanki hefur hafið móttöku umsókna um viðbótarlán og er umsóknareyðublað að finna á vef bankans islandsbanki.is. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Veiting viðbótarlána er liður í þeim mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 faraldursins til að tryggja eins og kostur er afkomu fyrirtækja, rekstur og störf. Lánin bera 70% ríkisábyrgð og er Íslandsbanki ein þeirra lánastofnana sem hafa munu milligöngu um veitingu þeirra.

„Starfsfólk Íslandsbanka hefur unnið sleitulaust að því undanfarnar vikur að útfæra þau úrræði sem ríkið hefur veitt þannig að þau megi gagnast viðskiptavinum okkar sem best. Samtöl við viðskiptavini um viðbótarlán hafa staðið yfir um nokkra hríð en með með veitingu viðbótarlána er stigið mikilvægt skref. Áfram er unnið er að því að opna fyrir umsóknir um stuðningslán, sem bera 85-100% ríkisábyrgð, í samstarfi við vef Stafræns Íslands á slóðinni island.is,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.