Opnað verður fyrir viðskipti á iSEC markaðnum í dag, 3. júlí. Hampiðjan er fyrsta fyrirtækið til að skrást á hinn nýja markað.

Hampiðjan flyst yfir á iSEC af Aðallista Kauphallarinnar og er auðkenni hennar óbreytt HAMP. Samstæða Hampiðjunnar samanstendur af móðurfélaginu og 14 dótturfélögum, en fyrirtækið er alþjóðleg keðja veiðarfæragerða er þróar, framleiðir, selur og þjónustar fullbúin veiðarfæri og hefur innan sinna vébanda framleiðslu á grunneiningum þeirra, þ.e. á netum og köðlum. Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2005 námu 48,0 milljónum evra. Þann 31. mars sl. námu heildareignir félagsins 78,1 milljón evra og eigið fé nam 34,5 milljónum evra. Markaðsvirði Hampiðjunnar er 4,1 ma.kr.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar sagði við þetta tilefni: ,,Það er mjög ánægjulegt að opnað hafi verið fyrir viðskipti á iSEC og við bjóðum Hampiðjuna velkomna á hinn nýja markað. iSEC er ætlað að fjölga fjárfestingartækifærum á íslenska markaðnum, og veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum tækifæri til vaxtar á hlutabréfamarkaði. Með þessum markaði er boðin hliðstæð þjónusta og í flestum nálægum kauphöllum. Við bindum miklar vonir við iSEC og væntum þess að þessi markaður verði hagfelldur fyrir fyrirtæki og fjárfesta í framtíðinni.

Með opnun iSEC skipar Kauphöllin sér í flokk kauphalla sem eru leiðandi í að auka möguleika smárra og meðalstórra félaga til vaxtar. iSEC er jafnframt liður í því að efla samkeppnishæfni Kauphallarinnar á alþjóðavettvangi. Allmörg fyrirtæki hafa iSEC sýnt markaðnum áhuga og væntir Kauphöllin þess að hann verði vaxtarfyrirtækjum lyftistöng og fjárfestum uppspretta nýrra tækifæra.