*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 21. júlí 2021 18:02

Opna hleðslustöðvar fyrir öðrum framleiðendum

Tesla stefnir að því að opna hraðhreðslustöðvar sínar fyrir keppinautum í skrefum síðar á árinu, á Íslandi eru 21 slíkar stöðvar.

Snær Snæbjörnsson
Tesla hraðhleðslustöð í Noregi

Tesla stefnir á að opna hraðhleðslunet sitt fyrir öðrum tegundum seinna á þessu ári. Reuters greinir frá.

Sjá einnig: Hraðari hleðsla en hjá Tesla

Til að byrja með mun Tesla opna fyrir stöðvarnar í völdum löndum en að lokum alls staðar. Umfangsmikið hraðhleðslunet Teslu, sem telur 25.000 hraðhleðslustöðvar, hefur gefið fyrirtækinu samkeppnisforskot yfir keppinauta sína. Keppinautar Teslu hafa annaðhvort þurft að fara í samstarf eða fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum til til að halda í við þá.

Hæg fjölgun hraðhleðslustöðva víðs vegar um heim hefur lengi þótt hamla fjölgun rafmagnsbíla. Samgönguráðherra Þýskalands hefur um nokkurt skeið reynt að sannfæra fyrirtækið um að opna fyrir hraðhleðslustöðvar sínar. Þá hefur Bandaríkjaþing samþykkt að eyða 7,5 milljörðum dollara í uppbyggingu á innviðum fyrir rafmagnsbíla. 

Sjá einnig: Átján nýjar hraðhleðslustöðvar í ár

Á Íslandi eru nú 21 Teslu hraðhleðslustöðvar, átta við Staðarskála, sjö á höfuðborgarsvæðinu, fjórar á Kirkjubæjarklaustri og tvær á Egilsstöðum. Þá stendur til að reisa hraðhleðslustöðvar í miðbæ Reykjavíkur, Hvolsvelli, Höfn og Akureyri.

Stikkorð: Tesla