„Það er búið að selja lóðirnar í kring og er uppbygging í götunni að fara á fullt. Með því mun þjónustustigið í hverfinu hækka. Það hefur verið grínast með það í bankageiranum að þegar húsið Tjarnarvellir 3 yrði selt og færi í notkun væri kreppunni formlega lokið,“ segir Kolbeinn Össurarson, annar eigenda JFK fasteigna, í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að fyrirtækið hyggist opna 68 herbergja hótel í húsinu að Tjarnarvöllum í sumar og framkvæmdir séu hafnar innandyra. Kolbeinn segist sjá tækifæri í staðsetningunni og horfir þar til nálægðar við flughermi Icelandair á Völlunum og íþróttamannvirkja á Ásvöllum.

„Sýnileiki hússins er mikill. Það má segja að þetta svæði sé eins og hlið inn á höfuðborgarsvæðið fyrir meirihluta ferðamanna sem koma til landsins. Aðgengið er því afar gott,“ segir Kolbeinn.