Iceland Market hefur opnað í Nagoya í Japan. Nagoya er þriðja stærsta borg Japans með um 2,3 milljónir íbúa. Iceland Market mun selja vörur frá 66 Norður, Bioeffect, Omnom og fleiri íslenskar vörur ásamt því að vera með íslenska matarrétti á boðstólnum. Meðal annars eru íslenskar pönnukökur með rjóma á boðstólnum sem og íslenskur humar.

Hirotaka Ueno hjá Cross International stendur bakvið markaðinn í Nagoya en Styrmir Bjartur Karlsson, sem starfar sem markaðsstjóri Hard Rock Cafe Reykjavík, hefur verið honun innan handar sem ráðgjafi í verkefninu. Sendiherra Íslands í Japan, Elín Flygenring, Styrmir Bjartur og Hirotaka Ueno opnuðu Iceland Market í Nagoya formlega við hátíðlega athöfn á föstudaginn.

,,Þetta er mjög skemmtilegt verkefni sem ég aðstoðaði við að setja af stað sem ráðgjafi. Fyrir um tveimur árum komu Hirotaka og félagar hans til mín og sögðu mér frá þessari hugmynd að setja upp íslenskan markað. Ég fór strax í málið og kynnti þá fyrir íslenskum vörumerkjum og sú vinna er ávallt lifandi þar sem mikill áhugi er á Íslandi. Japanarnir fengu hugmyndina eftir að ég fór með þá á Fjöruborðið á Stokkseyri fyrir um fimm árum síðan eftir að hafa gengið Fimmvörðuhálsinn sem var mikið ævintýri fyrir þá. Þeir elska Ísland og það sést í hvernig þeir vinna að öllu því tengdu,” er haft eftir Styrmi í fréttatilkynningu.

Á markaðnum fær íslensk hönnun að njóta sín að því er segir í tilkynningunni. Íslenskar ferðabækur og þjóðsögur frá Íslandi á japönsku með íslenskri tónlist í bakgrunninum á meðan hægt að gæða sér á séríslenskum mat.