Gert er ráð fyrir því að opna nýja mathöll í húsnæði Sjávarklasans á Grandagarði. Höllin verður opnuð í ríflega 500 fermetra rými í suðvesturenda á jarðhæð húsnæðis, sem var áður notuð til þess að hýsa starfsemi HB Granda að því er kemur fram í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu.

Þór Sigfússon, stjórnarformaður Sjávarklasans, gerir ráð fyrir því að það verði tíu básar eða söluvagnar á svæðinu, en þar verður aðal áherslan lögð á nýjungar í hinum ýmsu göturéttum. Einnig verður þar vinnuaðstaða fyrir frumkvöðla sem tengjast sjávarútveginum. Hann segir að hugmyndin sé sótt til Copenhagen Street Food og Vippa í Ósló Noregi. Þá verði staðurinn heldur „hrárri“ en Mathöllin á Hlemmi, sem var opnuð fyrr í sumar.