Sölustöðvun ÁTVR á öðru neftóbaki var aflögð um síðustu mánaðamót og verður ekki tekin upp að nýju nema stjórnvöld stígi inn í. Enn sem komið er hafa engar formlegar umsóknir um markaðssetningu á nýju tóbaki borist. Verði slíkar umsóknir samþykktar mun koma til skoðunar hvort réttlætanlegt sé að halda áfram sölu ÁTVR á eigin neftóbaki.

Íslenska neftókakið er framleitt af ÁTVR en eftir því sem markaðnum óx fiskur um hrygg vildu fleiri aðilar komast inn á hann. Árið 2011 bárust ÁTVR umsóknir frá fjórum tóbaksbirgjum sem vildu að neftóbak þeirra yrði tekið í sölu. Grunur lék á að vörurnar væru ætlaðar sem munntóbak þó þær væru titlaðar sem neftóbak. Umsóknunum var svarað á þann veg að ekki yrði tekin afstaða til þeirra fyrr en að lokinni endurskoðun á gildandi lögum og reglum.

Í samskiptum milli ÁTVR og heilbrigðisráðuneytisins (HRN) kom fram að „rökstuddur grunur“ væri um að umrætt tóbak væri ætlað til töku í munn þó það héti neftóbak. Nauðsynlegt væri að skilgreina nákvæmlega hvar mörkin milli nef- og munntóbaks væru en fyrir liggur að um 80% af íslenska ruddanum endar í efri og neðri vör landsmanna þó munntóbak sé bannað með lögum hérlendis.

Í umræddum samskiptum kemur enn fremur fram að hluti umsóknanna virtist við fyrstu sýn vera sambærilegt því tóbaki sem ÁTVR hefur um árabil framleitt. Væri það hins vegar ætlað til töku í munn bæri umsvifalaust að synja umsóknunum. Eftir stæði hins vegar álitaefnið um hvað bæri þá að gera við íslenska tóbakið enda „þótti [margt] benda til þess að einungis hluti notenda tæki það í nefið.“

ÁTVR aflaði lögfræðiálits um málið og var því skilað í febrúar 2013. Í því kom fram að hinar nýju tegundir væru sambærilegar íslenska tóbakinu að flestu leyti.

„ÁTVR telur sig ekki hafa lagaheimild til þess að banna [neftóbak] alfarið miðað við óbreytt lagaumhverfi. Þar sem ekki er lengur stætt á því út frá samkeppnissjónarmiðum að halda núverandi sölustöðvun mun ÁTVR frá og með 1. júní nk., að óbreyttu, heimila sölu á reyklausu tóbaki frá öðrum birgjum,“ segir í bréfi ÁTVR til HRN frá í maí.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, að staðan sé óbreytt frá í maí. Engin formleg umsókn hafi hins vegar borist um markaðssetningu á öðru tóbaki enn sem komið er.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Deilurnar um úthlutun makrílsins eru langt frá því til lykta leiddar.
  • Áætlunum á framteljendur fjölgar samhliða auknu álagi á bókara og endurskoðendur
  • Terry Jones miðlar af reynslu sinni, en hann seldi nýsköpunarfyrirtæki í ferðaþjónustu á hátt í 400 milljarða.
  • Í batnandi heimi dregst Ísland aftur úr öðrum löndum á alþjóðlegum mælikvarða um opin hagkerfi.
  • Ítarleg úttekt um afkomu ýmissa fjármálafyrirtækja á Íslandi.
  • Greiningar á hlutabréfaverði með tölvutækni skoðuð.
  • Forstjóri hins þrítuga fyrirtækis ÍSAGA tekinn tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um væmnar siðareglur siðlausra siðapostula.
  • Óðinn skrifar um mannvitsbrekkur, pisa og vanda grunnskólans.