Nýtt útgáfufélag, Bókaútgáfan Opna, hefur verið stofnað af þeim Guðrúnu Magnúsdóttur og Sigurði Svavarssyni sem bæði eiga að baki meira en 20 ára starf við útgáfu. Hlutverk og markmið Opnu er að stunda almenna bókaútgáfu auk þess sem fyrirtækið tekur að sér vinnslu og dreifingu verka fyrir innlendan og erlendan markað. Opna mun einnig bjóða einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum upp á útgáfuráðgjöf og -þjónustu. Þegar hefur verið bundið fastmælum að Opna veiti eigendum Almenna bókafélagsins alhliða útgáfuþjónustu, segir í fréttatilkynningu.

Við upphaf starfsemi Opnu liggja fyrir samningar og áætlanir um útgáfu allmargra titla. Meðal væntanlegra verka er að finna stórvirki, segir í fréttatilkynningunni, um myndlistarsögu mannkynsins, grundvallarrit um íslenska náttúru, fræðirit fyrir almenning um loftslagsmálin, ævintýralega ljósmyndabók um himinhvolfin, tvær íslenskar ævisögur, eftirtektarverðar dýralífsbækur og leiðsögurit um Ísland.

Sigurður Svavarsson verður útgefandi Opnu og Guðrún Magnúsdóttir framkvæmdastjóri. Þau hafa í starfi sínu tengst öllum þáttum bókaútgáfu, allt frá hugmynd til prentaðrar bókar. Sigurður var síðast aðalútgáfustjóri Eddu en áður hafði hann meðal annars verið framkvæmdastjóri Máls og menningar. Guðrún var forstöðumaður framleiðsludeildar Máls og menningar og síðar Eddu. Hún annaðist verkstjórn á ritstjórn þessara forlaga og stýrði framleiðslu á hundruðum titla árlega. Þau Guðrún og Sigurður búa einnig að tengslum við stærstu útgáfufyrirtæki Evrópu og Norður-Ameríku, auk allra helstu útgáfufyrirtækja á Norðurlöndum.

Ýmsir bakhjarlar, sem meðal annars tengjast bókagerð, grafískri hönnun og upplýsingamiðlun, standa að Opnu auk þeirra Guðrúnar og Sigurðar. Búast má því við að hluthafar verði í framtíðinni fleiri. Bókaútgáfan Opna er til húsa í Skipholti 50b.   Guðrún: „Reynsla skiptir miklu máli í bókaútgáfu en auk hennar þarf ákveðin ástríða að vera fyrir hendi. Við hlökkum til að virkja reynslu okkar og áhuga undir eigin merkjum og vonumst til að geta átt þátt í að gera íslenska útgáfu enn fjölbreyttari og þróttmeiri.“

Sigurður: „Hugur okkar sem stöndum að Bókaútgáfunni Opnu er að verða fyrsti valkostur þeirra höfunda, stofnana og félaga sem sækjast eftir að gefa út vandaðar og metnaðarfullar bækur þar sem kappkostað er að huga að hverju smáatriði í frágangi bókverksins og smíða ritverk sem standast tímans tönn.“