Landsbankinn opnaði í gær nýtt útibú við Krossmóa 4a í Reykjanesbæ en þangað mun flytjast öll starfsemi bankans í Keflavík og Njarðvík. Öll þjónusta útibúsins er á fyrstu hæð hússins en á annarri hæð er starfsemi bakvinnslu sem tilheyrir höfuðstöðvum bankans.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að nýja útibúið er hannað með það að leiðarljósi að gera þjónustu í senn fjölbreyttari og nútímalegri. Ýmsar nýjungar líta dagsins ljós bæði á skipulagi og tækni sem nýtast munu viðskiptavinum vel. Aðalverktaki vegna framkvæmdanna var Bragi Guðmundsson og fyrirtæki hans. Flestir sem að verkefninu komu, þ.á m. smiðir, rafvirkjar, málarar og pípulagningamenn eru heimamenn.

Einar Hanesson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ, segir í tilkynningu að starfsfólkið sé mjög ánægt að vera komið á nýjan stað.

Hjá Landsbankanum vinna 90 manns á Suðurnesjum.

Ný tegund hraðbanka

Í nýja útibúinu verður ný tegund hraðbanka sem býður upp á fjölda nýrra möguleika í sjálfsafgreiðslu. Í hraðbankanum verður veitt öll helsta þjónusta sem gjaldkerar veita, fyrir utan kaup og sölu gjaldeyris. Þar verður m.a. hægt að leggja inn á bankareikninga eða taka út reiðufé af öllum reikningum.