Í vor opnar Blackbox Pizzeria sinn annan stað og í þetta skiptið í hjarta Mosfellsbæjar þar sem veitingastaðurinn Hvíti Riddarinn hefur verið í mörg ár. Þetta er fullkomin staðsetning fyrir næsta Blackbox stað í fjölskylduvænum bæ sem telur rúmlega tíu þúsund íbúa og mikil vöntun á skemmtilegum veitingastöðum segir í fréttatilkynningu frá Blackbox Pizzeria.

Segir þar jafnan að þessi nýji Blackbox staður verði umkringdur frábærum nágrönnum en þarna í Háholtinu sækja Mosfellingar sína helstu þjónustu. Meðal verslana sem þar eru staðsettar eru Krónan, Mosfellsbakarí, apótek, fiskbúð og ísbúð og einnig örstutt í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar.

Blackbox opnaði sinn fyrsta stað 22. janúar í fyrra í Borgartúni 26 og hefur notið mikilla vinsælda að því er segir í tilkynningunni. Blackbox afgreiðir eldsnöggar, eldbakaðar, súrdeigsbotns pizzur með hágæða hráefnum, byltingarkenndur snúningsofninn nær gífurlegum hita og eldbakar pizzuna á aðeins tveimur mínútum er þar jafnframt fullyrt.

Eigendur Blackbox eru stofnendur staðarins, Karl Viggó Vigfússon og Jón Gunnar Geirdal, ásamt Jóhannesi Stefánssyni og fjölskyldu í Múlakaffi og Jóhannesi Ásbjörnssyni en saman eiga þeir tveir síðastnefndu Gleðipinna, rekstraraðila Keiluhallarinnar og Hamborgarafabrikkunnar.