Það er gjarnan til marks um uppgang í efnahagslífinu að brottfluttir einstaklingar snúa aftur heim og erlent vinnuafl tekur að sækja í auknu mæli til landsins í von um atvinnutækifæri. Kannanir á vegum Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, sýna svo ekki verður um villst að skortur er á starfsfólki í ýmsum starfsgreinum og tölur Hagstofunnar endurspegla ástandið.

Keyptu blokkir á Ásbrú fyrir erlenda starfsmenn

Þegar tölur Hagstofunnar eru skoðaðar nánar vekur það sérstaka athygli að erlendum ríkisborgurum fjölgar mest á Suðurnesjum og Suðurlandi samanborið við aðra landshluta. Talsmaður Reykjanesbæjar segir sveitarfélagið í raun ekki hafa þurft að gera mikið til að koma til móts við hið erlenda vinnuafl. „Þetta eru mjög mikið farandverkamenn sem koma hingað til lands og vinna yfir hásumarið, kannski frá mars og fram í nóvember. Bæði Airport Associates og IGS hafa verið að kaupa blokkir uppi á Ásbrú og leigja síðan íbúðirnar út til starfsmanna sinna. Þetta er gjarnan fólk sem á fjölskyldu erlendis en kemur eitt hingað til að vinna í takmarkaðan tíma. Við verðum þannig ekkert sérstaklega mikið vör við þetta hér í samfélaginu,“ segir talsmaður sveitarfélagsins.

Fylgjast náið með

Talsmaður Reykjanesbæjar segir sveitarfélagið fylgjast náið með allri fólksfjölgun á svæðinu, bæði hvað varði Íslendinga og erlenda ríkisborgara og þau finni vissulega fyrir aukningu beggja hópa að undanförnu.

„Við finnum fyrir auknum fjölda erlendra ríkisborgara enda koma þeir til okkar að sækja um kennitölu. Þetta eru sérstaklega starfsmenn sem eru að vinna uppi á flugvelli fyrir Airport Associates og IGS, félög sem þjónusta meðal annars Icelandair og WOW air. Ég veit líka til þess að IGS hefur opnað ráðningarskrifstofur í Póllandi þar sem félagið er að leita að starfsmönnum fyrir næsta sumar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.