Eimskipafélag Íslands opnaði árið 2013 skrifstofur í Portland, Maine og hefur samstarf á milli svæðisins og Íslands aukist verulega í kjölfar opnunarinnar. Nýjasta dæmi þess er komandi opnun sjávarklasa vestanhafs en fyrirmynd hans er Íslenski sjávarklasinn sem hefur það að markmiði að stuðla að öflugu samstarfi fyrirtækja og frumkvöðla í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar kemur fram að klasinn bjóði upp á aðstöðu til að vinna með hugmyndir sínar og hrinda þeim í framkvæmd og hafi þannig áhrif á framþróun í málum tengdum sjávarútvegi.

„Það er virkilega gaman að sjá hvað hugvit og framkvæmdasemi Íslendinga getur haft mikil áhrif á heimsvísu en eftir að við opnuðum skrifstofurnar finnum við fyrir miklum áhuga þarna úti fyrir því sem við Íslendingar erum að gera“, segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips.

Á meðal samstarfsaðila Sjávarklasans í Maine eru tveir háskólar á svæðinu og segir Ólafur að klasinn eigin eftir að koma nemendum í fögum tengdum sjávarútvegi vel. „Náin samvinna við aðra sem hafa áhuga og þekkingu á þessum málum hlýtur að stuðla að hugmyndauðgi og auknum möguleika á að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd“, segir hann.