Samkvæmt nýjasta tölublaði Hróðurs, tímariti háskólanema við HR, er stefnt að því að opna nýtt frumkvöðlasetur skammt frá baðströndinni við Nauthólsvík.

Frumkvöðlasetrið mun bera nafnið Stúdentabragginn, en framkvæmdir eru nú í fullum gangi. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum í sumar og verður bragginn því opnaður formlega í haust.

Nýsköpunarsetur og samkomustaður

Í Stúdentabragganum verður auk frumkvöðla- og nýsköpunarseturs, veitingaþjónusta, samkomustaður og félagsaðstaða fyrir nemendur HR.

Samkvæmt umfjöllun tímaritsins mun aðstaðan rúma allt að 40 frumkvöðla, en auk þess verður samkomu og fyrirlestrasalur sem mun rúma um 30 manns.

Veitingar í breskum bragga

Stúdentabragginn mun að hluta til líkjast Stúdentakjallara Háskóla Íslands. Nemendur munu því geta keypt sér hollan skyndibita, kaffi, léttvín, bjór og kökur.

Húsnæðið sem mun hýsa Stúdentabraggann er hluti af stríðsminjasögu Reykjavíkur, en hann var reistur í seinni heimsstyrjöldinni af Bretum.

Í Bragganum var eitt sinn hótel sem var kennt við Winston Churchill, en eftir stríðið var vinsælt að halda dansleiki í húsunum.