Hugvit, nýsköpun og tækni verða burðarásar í verðmætasköpun Íslendinga. Þetta er markmið starfsins í Vísindaþorpinu í Vatnsmýri eða Reykjavik Science City sem kynnt verður formlega í nýju húsnæði Íslandsstofu í Grósku kl. 11 í dag.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði eftirsóttur staður til rannsókna, þróunar og fjárfestinga auk þess að laða erlend fyrirtæki og sérfræðinga til landsins. Í Vísindaþorpinu verður lögð áhersla á uppbyggingu svokallaðrar grænnar og blárrar tækni (e. Greentech og e. Bluetech) og lífvísinda en Íslendingar hafi þegar aflað sér mikillar þekkingar á þeim sviðum og eiga þar inni öflug tækifæri.

Störfum í hugverkaiðnaði fjölgaði um 14% í miðjum heimsfaraldri

Jarþrúður Ásmundsdóttir, fagstjóri hugvits, nýsköpunar og tækni hjá Íslandsstofu segir mikil tækifæri í þessum efnum. Mikill vöxtur hafi verið í gjaldeyristekjum hugverkaiðnaðarins undanfarin ár og áhrif Covid-19 undirstriki enn frekar hve mikilvægt er fyrir íslenskt efnahagslíf að styrkja og fjölga stoðum í efnahagslífinu.

„Það er þörf á enn frekari vexti í greinum tengdum hugviti, nýsköpun og tækni Reykjavík Science City er til að styðja við þann vöxt. Tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi,“ segir Jarþrúður og bendir á að samkvæmt rannsókn Íslandsstofu á rekstrarumhverfi slíkra fyrirtækja hafi komið í ljós að á árinu 2020 fjölgaði starfsgildum þar um 14% á sama tíma og heimsfaraldurinn gekk hér yfir með tilheyrandi uppsögnum og atvinnuleysi.

Í Vatnsmýrinni hafi skapast frjór jarðvegur fyrir fyrirtæki sem drifin eru áfram af hugviti og segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Vísindaþorpið eina meginstoð borgarinnar í atvinnumálum.

„Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf og öflugt þekkingarsamfélag er liður í samkeppnishæfni borgarinar. Öðrumegin í borginni er að vaxa Þorp skapandi greina í Gufunesi og hinumegin erum við með Vatnsmýrina sem samanstendur af framúrskarandi rannsóknum á sviði læknavísinda við Landspítalann, að Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Nú þegar eru starfandi framsækin og stöndug fyrirtæki eins og CCP, Decode og Alvogen auk fjölda lítilla og meðalstórra sprotafyrirtækja á sviði tækni og vísinda. Við erum staðráðin í að fjölga stórum og öflugum þekkingarfyrirtækjum á svæðinu og auka enn á gróskuna hjá minni fyrirtækjum og sprotum. Framtíðin er því björt í Vatnsmýrinni og hryggjarstykkið verður Vísindaþorpið sem við kynnum hér í dag.“ segir Dagur .

Frá Siri og Google yfir í Vatnsmýrina

Á fundinum mun Guðmundur Hafsteinsson, forstjóri og stofnandi Fractal 5, ræða um drífandi umhverfi fyrir tækni- og nýsköpunarfyrirtæki. Guðmundur hefur yfir 20 ára starfsreynslu í tæknigeiranum, hefur stofnaði tæknifyrirtæki og selt í Bandaríkjunum og var meðal annars yfir vöruþróun hjá Siri sem var síðar keypt af Apple, og einnig yfir vöruþróun á Google Assistant.

Eftir að hafa starfað í Bandaríkjunum í yfir fimmtán ár flutti hann aftur til Íslands vorið 2019. Fractal 5 teymið hefur starfsstöð í Grósku og vinnur að þróun hugbúnaðar sem kallast break.is til að auðvelda fólki að eiga í innihaldsríkari samskiptum við fleiri einstaklinga.