Í dag var opnað fyrir umsóknir í Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn sem árlega fjárfestir í 10 hugmyndum. Markmiðið sem fyrr er að skapa umgjörð þar sem þátttakendur njóta ráðgjafar og leiðsagnar reynslumikilla aðila í þeim tilgangi að ýta úr vör nýjum viðskiptatækifærum.

Þau tíu fyrirtæki munu meðal annars 2.000.000 króna fjárfestingu fyrir 6% eignarhlut, skrifstofurými í 10 vikur og ráðgjöf frá leiðbeinendum.

Ragnar Örn Kormáksson, verkefnastjóri Startup Reykjavík segir í samtali við Viðskiptablaðið að það séu engar meiriháttar breytingar þetta árið. Spurður hvað hann búist við að fá margar umsóknir segir Ragnar:

„Erfitt að segja, í fyrra fengum við í kringum 150 umsóknir. Við vonumst til að það verði sambærilegt í ár. Við búumst ekki við öðru en að það verði gott í ár. “

Ragnar segir að í ár verði lögð meiri áhersla á alþjóðlegan vinkil.

„Við erum að vinna með því sem heitir Global Accelerateor Network sem eru svona regnhlífasamtök viðskiptahraðala. Það samstarf er að aukast töluvert þannig að við sjáum enn meiri samlegðaráhrif að vinna með þeim í að koma íslenskum fyrirtækjum út. Það er kannski stærsta breytingin í ár og það sem við erum farin að leggja áherslu á. Það hefur verið gott grasrótarstarf hérna heima undanfarin ár. Við sjáum bara að þetta er það sem þeim vantar, þeim vantar að komast út á erlenda markaði og það er það sem við leggja áherslu á.“