Opnað hefur verið fyrir umsóknir í viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík fyrir sumarið 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Óskað er eftir umsóknum frá „öflugum teymum með nýjar lausnir á sviði tækni og skapandi greina, ætlaðar alþjóðamarkaði“. Umsóknarfrestur rennur út 27. mars næstkomandi en Startup Reykjavík hefst þann 10. júní og lýkur með kynningum verkefna fyrir fjárfestum þann 16. ágúst 2019.

Arion banki fjárfestir 2,4 milljónum króna í hverju fyrirtæki sem er valið gegn 6% eignarhlut, sem jafngildir 40 milljón króna heildarvirði. Fyrirtækin fá jafnframt aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu í tíu vikur. Teymin hljóta þjálfun og fræðslu, fá aðgang að víðfeðmu tengslaneti og endurgjöf fjölda sérfræðinga.

Í tilkynningunni er þátttaka í Startup Reykjavík gjarnan sögð hafa aukið vægi fyrirtækja gagnvart fjárfestum og styrktarsjóðum og varpað á þau sviðsljósi fjölmiðla. Fyrirtæki sem tekið hafi þátt í Startup Reykjavík hafi samanlagt fengið yfir 3,3 milljarða króna í fjármögnun og skapað fjölda starfa. Bent er á að í upphafi þessa árs hafi verið tilkynnt um fjárfestingu upp á 5 milljónir dollara, um 600 milljónir króna, í fyrirtækinu Authenteq, sem tók þátt í Startup Reykjavík 2014.

„Umsóknum í hraðalinn fjölgaði um 45% árið 2018 en þá bárust 270 umsóknir. Athygli vakti að um helmingur umsókna barst þá erlendis frá. Icelandic Startups hefur síðustu ár lagt aukna áherslu á að efla tengsl við alþjóðlegt sprotaumhverfi og því ánægjulegt að sjá aukinn áhuga erlendis frá á þátttöku í Startup Reykjavik. Við teljum það til marks um aukinn trúverðugleika á stuðningsumhverfi nýsköpunar og fumkvöðlastarfs á Íslandi.“

Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og Icelandic Startups „þar sem stöðugt er unnið að því að bæta efnistök og virði fyrir þátttakendur“. Verkefnið var valið besti viðskipahraðall Norðurlandanna árið 2015 og besti viðskiptahraðallinn á Íslandi árin 2015, 2016, 2017 og 2018.