Opnað var í dag fyrir umsóknir um mótframlagslán Stuðnings-Kríu og er umsóknafresturinn til 13. ágúst 2020. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Stuðnings-Kría er tímabundið stuðningsúrræði stjórnvalda til efnilegra sprotafyrirtækja sem vegna breyttra aðstæðna í kjölfar Covid-19 faraldursins þurfa að sækja sér aukna fjármögnun. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Áætlað er að lánin verði greidd út í haust.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun hafa umsýslu og framkvæmd verkefnisins samkvæmt samkomulagi við nýsköpunarráðherra. Stuðnings-Kría mun úthluta allt að 755 milljónum króna í formi lána til fyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Mótframlagslán verða í formi skuldabréfa með breytirétti í hlutafé.

Ákvarðanir um veitingu mótframlagslána eru teknar af nefnd sem skipuð er af ráðherra. Meginforsenda mótframlagslána er að umsækjandi hafi tryggt sér fjármögnun einkafjárfesta í formi hlutafjár eða lánveitingar. Stuðnings-Kría mun þá veita sambærilegt lán á sömu kjörum og á sama lánstíma að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:

„Með Stuðnings-Kríu stíga stjórnvöld mikilvægt skref í því að styðja við rekstur íslenskra sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Með því að skapa fyrirtækjum og einstaklingum aukið svigrúm til að vinna við nýsköpun er jafnframt lagður farvegur að frekari efnahagslegum framförum til frambúðar. Framlag Stuðnings-Kríu tekur mið af samstarfi opinberra aðila og einkaaðila og mun framlagið samsvara því sem aðrir fjárfestar eða lánveitendur leggja í fyrirtækin.“