Reykjanesbær hefur náð samkomulagi við stærsta kröfuhafa sinn, Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. (EFF). Í kjölfar þess hefur kauphöllinn opnað fyrir viðskipti með skuldabréf hafnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Reykjanesbær var upphaflega með skuldabréf á gjalddaga þann 15. október, en þegar ljóst var að ekki var hægt að greiða á gjalddaga þá var óskað eftir kyrrstöðutímabili og greiðslufresti, en það hefur verið framlengt nokkrum sinnum.

Skuldavandinn metinn rúmlega 6 milljarða

Ráðgjafi kröfuhafa hefur gert skoðun á forsendum fjárhagsáætlunar en eftir þá úttekt varð niðurstaðan sú að skuldavandi sveitarfélagsins væri 6.350 milljónir króna, enda þarf sveitarfélagið að ná markmiðum laga um skuldahlutfall og um leið að sinna lögbundinni þjónustu við íbúa.

Samkvæmt Sveitarstjórnarlögum þarf skuldaviðmið sveitarfélaga að vera undir 150% fyrir árslok 2022. Samkvæmt fjárhagsáætlun til ársins 2019 mun skuldaviðmið að óbreyttu vera yfir 200% við árslok 2022. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að samkomulag við kröfuhafa hafi því verið forsenda þess að hægt væri að endurskipuleggja skuldir sveitarfélagsins á þann hátt að lögbundnu skuldaviðmiði væri náð.

Reykjanesbær mun nú kynna fyrir öðrum kröfuhöfum niðurstöðu viðræðna, auk þess að eiga viðræður um endurskipulagningu og skiptingu skuldavandans milli kröfuhafa. Forsenda þess að endurskipulagning gangi eftir að gætt sé jafnræðis milli kröfuhafa, að um heildarendurskipulagningu sé að ræða þar sem allir kröfuhafar taki þátt.