Ekkert er því til fyrirstöðu að fyrirtæki geti nú sótt um undanþágur frá gjaldeyrislögum vegna áætlanagerðar. Þetta kom fram í fyrirlestri Kristínar Erlu Jóhannsdóttur á íslenska fjárstýringardeginum sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík á föstudaginn. Í máli Kristínar kom fram að Arion banki hefði unnið að því ásamt Seðlabankanum hvernig þjónusta megi fyrirtæki um gjaldeyrisvarnir út frá áætlunum þeirra og gjaldeyrisþörf fyrir framtíðina.

Í dag er óheimilt að eiga afleiðuviðskipti með krónur og erlendan gjaldeyri en það á þó ekki við um afleiðuviðskipti sem eru vegna vöru- og þjónustuviðskipta. Fyrirtæki hafa átt framvirk viðskipti ef þau geta sýnt fram á kaup á erlendum vörum sem afhentar eru á seinni tímapunkti.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins liggur ekki endanlega fyrir hvernig samningar um framvirk viðskipti á grundvelli áætlana fyrirtækja verða gerðir upp. Líklegt þykir að Seðlabankinn muni gera kröfu um að fyrirtæki upplýsi um vöruviðskipti á fyrri árum og útskýri til að mynda ef gert er ráð fyrir mikilli aukningu í innflutningi sem eykur þá þörf fyrir framvirk viðskipti með gjaldeyri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.