Stimpilgjaldi aflétt af skipakaupum

Alþingi samþykkti í síðustu viku með 28 atkvæðum frumvarp frá fjármálaráðherra til laga um afnám stimpilgjalds af stórum skipum. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu það harðlega að verið sé að lækka skatta á stórútgerðina nú þegar aðstæður eru víða erfiðar í samfélaginu.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til sjónarmiða um jafnræði atvinnugreina og þess að skip yfir fimm brúttótonnum hafi síðan 2013 verið einu atvinnutækin sem enn þurfi að greiða stimpilgjöld af þegar þau eru keypt.

Sjómannasamband Íslands og VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna lýsa aftur á móti áhyggjum af því að með því að aflétta stimpilgjaldi sé útgerðinni „gert kleift að flagga skipum út og inn af íslenskri skipaskrá að eigin geðþótta og stefna afkomu sjómanna í stórhættu,“ eins og segir í umsögn samtakanna um frumvarpið. „Hvergi er talað um „rekstrarumhverfi“ sjómanna eða umhyggju fyrir störfum sjómanna í frumvarpinu,“ segir ennfremur í umsögn þeirra.

SFS fullyrðir hins vegar í sinni umsögn að staða sjómanna muni ekki breytast af þeirri einföldu ástæðu að í lögum um stjórn fiskveiða er skýrt ákvæði um að einungis fiskiskip sem eru á skipaskrá eða bátaskrá Samgöngustofu og með íslensk haffærisskírteini geti fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Áhyggjur tengjast Grænlandi

„Frumvarpið mun í engu breyta kjörum sjómanna við veiðar íslenskra skipa á íslenskum aflaheimildum", sagði ennfremur í umsögn atvinnuvegaráðuneytisins við frumvarpið.

Hins vegar megi afmarka „áhyggjur launþegasamtaka við samninga um veiðar í lögsögu þriðju ríkja. Nánar má afmarka þetta í ljósi reynslunnar við veiðar á makríl í Grænlenskri lögsögu," segir þar ennfremur og vísað til þess að veiðar Grænlendinga á makríl hafi aukist verulega á síðustu árum.

Ráðuneytið segir að tvö íslensk félög eigi hluti í tveimur þeirra tíu grænlensku félaga sem stunda makrílveiði á Grænlandi. Íslensk skip hafi verið lögð inn í þessi grænlensku félög og ráðuneytið segir ekki ósennilegt að þar séu „íslenskir sjómenn að einhverju marki í skipsrúmi, a.m.k. í yfirmannsstöðum.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna og formaður atvinnuveganefndar alþingis, dró fram þennan vinkil á málinu þegar frumvarpið kom til fyrstu umræðu á þingi í nóvember síðastliðnum.

„Það hefur verið þó nokkuð um að það sé verið að fara með skip til Grænlands. Þar eru réttindin allt önnur en þau sem við þekkjum hér. Þar er krafa um að allir undirmenn séu grænlenskir. Maður skilur vel þá kröfu út frá grænlenskum hagsmunum en þar eru kjarasamningar sambærilegir og hér ekki til staðar, allt annað félagslegt kerfi í gangi og slysatrygging minni,“ sagði hún. „Ef þetta verður til þess að hemillinn á að útgerðir fari í að afskrá sig af íslenskri skipaskrá hverfi sjáum við líka fram á að fleiri sjómenn missi vinnu og þar með lækki skattar og útsvar af viðkomandi sjómönnum.“

Ekkert í staðinn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, en frá honum er frumvarpið komið, svaraði því til að hann þekkti þessi sjónarmið. Hins vegar telji hann stimpilgjaldið vera afleita leið til að ná fram markmiðum um réttindamál sjómanna.

„Það ætti að vera okkur mikið umhugsunarefni hvaða staða er í raun og veru uppi varðandi rekstrarumhverfið ef stimpilgjaldið er raunverulega eina hindrunin fyrir því að menn afskrái skip, færi það yfir í nýtt eignarhald og fari í útgerð í öðrum löndum með nýrri áhöfn,“ sagði Bjarni.

Viðbrögð Lilju Rafneyjar voru þau að það hefði þá „átt að skoða það samhliða í þessu samhengi hvort það eru einhverjar aðrar leiðir til að mæta áhyggjum af atvinnuöryggi sjómanna og þeim réttindum sem menn eru búnir að hafa fyrir í gegnum tugi ára að ná fram hér á Íslandi.“

Ekki var þó hugað frekar að þessari hlið málsins þegar frumvarpið varð að lögum í síðustu viku.

Fiskiskip við strendur Grænlands. MYND/Þorgeir Baldursson

800 sinnum hærra

- Greiða hefur þurft stimpilgjald sem nemur 1,6% af kaupverði skips.

- Á undanförnum fimm árum hafa skip sem keypt hafa verið til landsins kostað frá um einum milljarði króna upp í 5,5 milljarða. Stimpilgjald af hverjum milljarði skipsverðs nemur því 16 milljónum króna.

- Bent hefur verið á að stimpilgjald á skipi sem hingað kemur til lands hafi verið 800 sinnum hærra en í Noregi eða í Færeyjum.