Þriðja sjálfsafgreiðslustöð Atlantsolíu mun opna innan nokkurra daga við Sprengisand á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Í samtali við Huga Hreiðarsson markaðstjóri Atlantsolíu kom fram að mikil eftirvænting ríkir meðal margra bíleigenda fyrir því að stöðin taki til starfa.

"Það hefur ringt yfir okkur símtölum á síðustu dögum vegna áhuga Reykvíkinga fyrir að taka bensín þarna. Þetta mun stytta spölinn fyrir marga þá tryggu viðskiptavini sem við höfum eignast. Margir þeirra hafa látið það hafa sig að keyra langa leið til þess eins að versla við okkur en með þessari stöð styttist sú vegalengd verulega," sagði Hugi. Þetta verður þriðja stöð félagsins en fyrir er það með sjálfsafgreiðslustöðvar í Kópavogi og Hafnarfirði. Hugi sagðist þekkja mörg dæmi þess margir viðskiptavinanna hafi keyrt á stöðvar Atlantsolíu alla leið frá Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ til þess eins að stuðla að meiri samkeppni á þessum markaði. Með því vísaði hann til þess að eftir að Atlantsolía kom á markað að þá hafi markaðsaðstæður breyst á þann hátt að bensínverðið hafi lækkað og þá sérstaklega í kringum stöðvar Atlantsolíu í Kópavogi og Hafnarfirði.  "Við viljum þannig minna á síðustu afturköllun hækkana samkeppnisaðila um miðjan janúar sem eingöngu komu til vegna þess að við hækkuðum ekki. Ég fullyrði að ef Atlantsolía væri ekki á markaðnum hefði díselolía hækkað um 6 krónur í janúar og til þess ættu atvinnubílstjórar að hugsa þegar þeir taka olíu."

Hugi sagði forsvarsmenn Atlantsolíu vera hvergi nærri hætta við að efla samkeppni á þessum markaði. "Við vonumst til að geta fengið fleiri lóðir á höfuðborgarsvæðinu en það er á brattann að sækja. "Eftir fjórar vikur rennur út frestur til að skila athugasemdum varðandi byggingu sjálfsafgreiðslustöðvar við Dalveg í Kópavogi. Shell hefur þegar sent inn kvörtun vegna þessa og hafa farið fram á bætur ef að við fáum að reisa bensínstöðina. Það eina sem getur tafið málið eru þessar árásir þeirra."

Hugi sagði tímafrekara að reisa nýjar bensínstöðvar en húsnæði undir annars konar atvinnustarfsemi vegna þess að veita þurfi sérstakt leyfi til að reisa bensínstöð og oftast þurfi að gera breytingar á deiliskipulagi svo að slík stöð megi rísa.