Orri Vigfússon áformar að reisa lúxusgistihús á bænum Deplum í Fljótunum fyrir afar efnaða ferðamenn sem á að opna næsta sumar. Með Orra að verkefninu kemur Chad R. Pike, aðalframkvæmdastjóri og varaformaður fjárfestingarsjóðsins Blackstone í Evrópu. Sjóðurinn er einn stærsti fjárfestingarsjóður í heimi. Verkefnið kostar nokkuð hundruð milljóni króna. Gistihúsið verður rekið undir merkjum Eleven Experience, sem er í eigu Pikes, en fyrirtækið býður upp á lúxusgistingu í hæsta gæðaflokki víða um heim.

Fram kemur um málið í Morgunblaðinu í dag að þeir Orri og Pike hafi þekkst í árabil. Pike situr í stjórn Verndarsjóðs villtra laxastofna sem Orri setti á laggirnar en saman keyptu þeir bæinn fyrir nokkrum árum.

Eleven Exprience á skála í Tarantaise frönsku Ölpunum en þar kostar nóttin fyrir tíu manna hóp frá 12.500 bandaríkjadölum, 1,5 milljónum króna. Innifalið í verðinu er alls kyns þjónusta, s.s. skíðaferðir með þyrlum, matur o.fl.

Eleven Experience býður jafnframt upp á lúxusgistingu í Ameríku og Evrópu. Gistihús undir merkjum fyrirtækisins er þegar að finna í skíðabænum Crested Butte í Klettafjöllunum í Bandaríkjunum og í Edington, skammt frá borginni Bath á Englandi.