„Við vorum búin að leita lengi að húsnæði til að stækka við starfsemina. Okkur fannst þetta tilvalinn staður þar sem húsin eru sögufræg og eitt af kennileitum bæjarins,” segir Sigurður Jóhannsson veitingamaður á Akureyri í samtali við Vikudag . Hann mun ásamt Hebu Finnsdóttur og Róberti Hassler opna nýjan veitingastað í vor í gömlu Gránufélagshúsunum á Akureyri. Sigurður rekur einnig Strikið og Bryggjuna á Akureyri.

Í frétt Vikudags segir að mikil flóra sé í veitingabransanum í bænum um þessar mundir og samkeppnin mikil. Sigurður segist hins vegar hvergi banginn. „Síðan ég opnaði Strikið árið 2005 hafa fimmtán veitingastaðir opnað og tíu þeirra hætt starfssemi. Þannig að margir staðir staldra stutt við. En við höfum fulla trú á þessu, við erum veitingafólk í húð og hár og þekkjum markaðinn,” segir Sigurður.