Nordic Innovation House, frumkvöðlasetur fyrir norræn frumkvöðlafyrirtæki, opnaði nýlega starfsstöð í Kísildal í Kaliforníu. Greint er frá þessu á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Frumkvöðlasetrið er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og systurstofnana þess á Norðurlöndunum.

“Við á Nýsköpunarmiðstöð Íslands erum ákaflega spennt fyrir samstarfinu. Tilkoma þess mun vonandi styrkja frumkvöðlasamfélag okkar hérlendis til muna og verða stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki framtíðarinnar. Í Sílikondal eru tækifæri sem ekki bjóðast hérlendis en eru engu að síður nauðsynleg fyrir mörg okkar frumkvöðlafyrirtækja. Með frumkvöðlasetrinu erum við vonandi að færa fyrirtækin nær sterkum fjárfestingarsjóðum, englafjárfestum og því afar öfluga tengslaneti sem einkennir samfélagið í Sílikondalnum”, segir Berglind Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Norrænir frumkvöðlar sem hafa áhuga á að starfa innan veggja Nordic Innovation House geta lagt inn umsókn hér .