Í nýju fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu kemur fram að borið hefur á tilboðum og óumbeðnum reikningum til fyrirtækja frá aðilum sem freista þess að viðkomandi taki tilboðunum og greiði reikningana að óathuguðu máli.

Til þess að koma í veg fyrir óþægindi og vandamál í tengslum við svona óskemmtilegar sendingar eru eftirtalin ráð gulls ígildi eins og kemur fram í fréttabréfinu og birtum við það óstytt hér.

1. Ekki taka tilboði, hvorki munnlegu eða skriflegu, án þess að ganga úr skugga um hvað felst í því. Ef bæði þjónustan og fyrirtækið er nýtt eða óþekkt þarft þú að vera sérstaklega vel á verði. Skoðaðu fyrirtækjaskrá eða spyrðu viðskiptabanka þinn ef þú ert í vafa. Gættu þín sérstaklega á fyrirtækjum sem hafa nöfn sem líkjast nöfnum þekktra vara eða fyrirtækja. Sannreyndu að tilvísun á þjónustusíma sé í raun virk.

2. Ef þú ert í vafa um hvað felst í tilboðinu eða hver tilboðsgjafinn er skalt þú óska eftir skriflegri lýsingu áður en þú tekur ákvörðun.

3. Sannreyndu að staðfest pöntun og reikningur sé í samræmi við það sem þú pantaðir eða tókst ákvörðun um.

4. Ef þú verður fyrir þrýstingi um að samþykkja ?sérstaklega gott tilboð" er ástæða til þess að vera á varðbergi.

5. Taktu þér ætíð tíma til að senda einfalda, skriflega kvörtun til sendanda ef þú færð ranga staðfestingu á pöntun, reikningi, greiðslukröfum o.þ.h. ? og gerðu það fljótt. Sendu afrit af kvörtuninni til SVÞ eða hagsmunasamtaka þinna.

6. Ekki greiða óréttmætan reikning til þess aðeins að losna við vandamálið. Með því að greiða þessa tegund reikninga, stuðlar þú að því að viðhalda tekjuflæði til óvandaðra aðila og þar með að ennþá fleiri fyrirtæki lendi í svipuðum vandræðum.

7. Láttu ekki hræða þig með orðinu ?lögsókn". Ef þú getur skráð að þú hafir mótmælt kröfunni (sjá 5.tl.), þá ættu ábyrg innheimtufyrirtæki ekki að reka kröfuna sem venjulega greiðslukröfu með tilheyrandi kostnaði og mögulega greiðsluathugasemd. Sjá t.d. meira í http://WWW.intrum.is/category.asp?catID=33

8. Tilkynntu ónákvæma eða villandi markaðsfærslu til hagsmunasamtaka þinna.