Optima er komið í samstarf við Microsoft á vettvangi lausna fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Í tilkynningu segir að með þessu samstarfi geti Optima boðið fyrirtækjum allar lausnir Microsoft og stutt við bakið á þeim með þjónustu vottaðra Microsoft sérfræðinga sem starfa hjá Optima. Með þessu samstarfi styrki Optima enn frekar stöðu sína á sviði skrifstofubúnaðar sem byggir á stöðluðum hugbúnaðarlausnum.

Í tilkynningunni er haft eftir Þorsteini A. Guðnasyni, framkvæmdastjóra Optima, að með þessu samstarfi auki fyrirtækið þjónustu og vöruúrval umtalsvert og geti nú boðið vörulínu Microsoft eins og hún leggi sig ásamt skrifstofubúnaði sem byggi á stöðluðum hugbúnaðarlausnum. Enn fremur segir Þorsteinn að hann vonist til að þetta verði viðskiptavinum Optima til hagsbóta og jafnframt ánægjulegt að geta tilkynnt þetta á 60 ára afmæli fyrirtækisins sem haldið er upp á um þessar mundir. Það sýni að fyrirtækið sé í stöðugri sókn og leiti stöðugt leiða til að uppfylla kröfur og væntingar viðskiptavina sinna.