*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 9. nóvember 2004 09:20

Optimar Ísland framleiðir fyrir York

Samningur um sölu ísþykknivéla

Ritstjórn

Nýverið gerði Optimar Ísland ehf. samning við York Fishery um að Optimar Ísland ehf. myndi framleiða allar ísþykknivélar til handa York samsteypunni. York er, í gegnum York ?inham B.V. , einn af frumkvöðlunum í hönnun og sölu á ísþykknivélum. Eru ísþykknivélar frá þeim m.a. í íslenskum skipum. Hugmyndin að samvinnu þessara félaga er fyrir York að nýta sér framleiðsluþekkingu og reynslu Optimar Íslands og fyrir Optimar Ísland að nýta sér hið yfirgripsmikla sölukerfi, reynslu og markaðsþekkingu risans í kælibransanum.

York er í kælibransanum það sem Microsoft er í tölvubransanum, leiðandi fyrirtæki á sínu sviði segir í tilkynningufrá Optimar. York er eitt af Fortune 500 félögum í USA, þar sem höfuðstöðvar þeirra eru. Hjá fyrirtækinu starfa um 23.000 manns og eru þeir með eigin útibú í 125 löndum. Innan York samsteypunnar eru m.a. sameinuð hin heimsþekktu fyrirtæki SABROE, FRICK og GRAM.

"Við erum mjög hreyknir af því að York skyldi hafa áhuga á því að starfa með okkur. Þetta er búin að vera löng lota, en liðið er meira en eitt ár síðan þeir komu hér fyrst í heimsókn, og síðan hefur tekið við langt tímabil funda og prófanna. Þeir hafa þrælprófað okkar vélar og við höfum staðist prófin og kröfur þeirra. Samningurinn gengur út á það að við framleiðum fyrir þá ísþykknivélar sem merktar verða með sameiginlegu vörumerki okkar beggja: "SABROE Optim-Ice", en vörumerkið SABROE er heimsþekkt í kælibransanum. Margir kannast við ísbjörninn í Sabroe merkinu. Við höldum áfram að markaðssetja undir okkar vörumerki líka, en einbeitum okkur að þeim löndum þar sem við höfum verið að selja, en látum nýja markaði í þeirra sölukerfi.

Við getum því ekki annað en verið bjartsýnir á framtíð okkar fyrirtækis," sagði Guðmundur Jón Matthíasson framkvæmdastjóri hjá Optimar Ísland ehf. í tilkynningu frá félaginu.

Optimar Ísland ehf. (áður MMC Fisktækni/Kværner Fisktækni), sem á sér langa og farsæla sögu og er eitt stærsta fyrirtæki í kælibransanum á Íslandi, hefur til margra ára verið í norskri eigu þar til í janúar 2003 er nokkir starfsmenn fyrirtækisins keyptu það. Fyrirtækið selur og þjónustar allar gerðir kæli- og frystikerfa, vacuum dælur, RSW kerfi, ósonkerfi og fiskvinnslukerfi fyrir bæði fiskiskip og frystihús. Starfsmenn eru í dag 14 talsins og fer framleiðsla vélanna fram að Stangarhyl 6, 110 Reykjavík.