Á stjórnarfundi í Orkuveitu Reykjavíkur í dag var m.a. á dagskrá hvort fara ætti í viðræður við fyrirtæki vestanhafs um orkusölu til kísilverksmiðju í Þorlákshöfn. Guðlaugur Gylfi Sverrisson, stjórnarformaður OR, segir að ákveðið hafi verið að fresta ákvörðun fram á mánudag. Fyrirtækið hefur áhuga á að nýta þau 90 megavött sem fyrirhugað er að virkja í Hverahlíð.

„Þar sem við eigum í viðskiptum við félag sem skráð er í kauphöll þá hafa menn ekki langan tíma. Það er skilningur á því hjá öllum að menn vilji setja sig vel inn í málin. Ef þetta fer í gegn á mánudag þá mun það fela í sér að við munum fara í samningaviðræður við þessa aðila um kísilverksmiðju í Þorlákshöfn."

Guðlaugur sagðist ekki geta upplýst um hvaða fyrirtæki væri um að ræða, en áformin væru af svipuðum toga og áður hafa verið hugmyndir um í Þorlákshöfn. Hann segir að þrátt fyrir mögulega samninga um Kísilverksmiðju sé ekki verið að útiloka orkusölu til Norðuráls vegna álversins í Helguvík.

„Það hefur verið gert ráð fyrir því að það væri opin gluggi fyrir aðila sem vildi nýta sér aðstæður í Þorlákshöfn til framleiðslu. Þá hefði hann forgang að rafmagni í ákveðinn tíma eftir að samningur hefur verið gerður við Norðurál. Við erum einmitt með svona tímaglugga opin núna sem þessir aðilar ætla að fara inn í. Við höldum þó áfram að ræða við Norðurál varðandi samning sem rann út í desember."

Guðlaugur segir að þó farið verði í orkusölusamninga við báða þessa aðila, þá eigi menn aukna möguleika á orkuframleiðslu í Bitru sem gróflega áætlað er talin geta gefið 125 megavatta orku. Of snemmt sé þó að spá í slík áform.