Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í dag lánasamning við Evrópska fjárfestingabankann að fjárhæð 170 milljóna evra með 9,8 punkta (0,098%) álagi á EURIBOR, millibankavexti í evrum. Lánið er til 20 ára.

Kjörin eru með þeim hagstæðustu sem íslenskum fyrirtækjum hafa boðist segir í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.

Lánið tryggir fjármögnun verkefna Orkuveitu Reykjavíkur vel fram á árið 2010; stækkun Hellisheiðarvirkjunar og byggingu Hverahlíðarvirkjunar.

Í fréttinni segir að sterk staða fyrirtækisins og krafa um  umhverfisvæna orkuframleiðslu á heimsvísu tryggir fyrirtækinu fjármögnun á þessum hagstæðu kjörum.

Stærsta einstaka verkefni Orkuveitu Reykjavíkur nú er bygging Hellisheiðarvirkjunar. Á næstu vikum verður afl virkjunarinnar komið í 213 megavött og er stærstur hluti framleiðslu hennar seldur í erlendri mynt á hagstæðu verði segir í fréttinni.

Fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur hefur gengið vel, þrátt fyrir þá óvissu sem ríkir á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.  Traust eignastaða Orkuveitu Reykjavíkur, sterk markaðsstaða og hagstæð ímynd umhverfisvænnar orkuframleiðslu eru sterkir áhrifaþættir á þau kjör sem fyrirtækinu bjóðast.

Samningurinn við Evrópska fjárfestingarbankann er um lán, sem hægt er að taka í fimm áföngum á næstu 18 mánuðum, eftir þörfum og öðrum aðstæðum. Ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur þarf að staðfesta af eigendum fyrirtækisins, Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð.

„Í því ástandi sem við, og raunar öll heimsbyggðin, býr við, er mikilvægt að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Við hjá Orkuveitu Reykjavíkur höfum vissulega fundið fyrir hinni alþjóðlegu óvissu og því er mikilvægt að okkur bjóðast áfram þau hagstæðu kjör, sem við höfum notið hingað til. Íslendingar, með Orkuveitu Reykjavíkur fremsta meðal jafninga, hafa verið í forystu jarðhitanýtingar í veröldinni um áratugaskeið. Alþjóðlegar fjármálastofnanir treysta okkur greinilega til að halda áfram að leiða þá þróun. Undir því trausti hyggst Orkuveita Reykjavíkur standa, samfélaginu öllu til eflingar á erfiðum tímum," segir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, í tilkynningu.