Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkti á fundi sínum á föstudag í síðustu viku lánasamning við Lánasjóð sveitarfélaga til að fjármagna yfirstandandi fráveituframkvæmdir á Akranesi, í Borgarbyggð og á Kjalarnesi. Á sama fundi var samþykktur samningur við hollenska bankann ING um áhættuvarnir gagnvart þróun álverðs og vaxta.

Í tilkynningu frá OR kemur fram að í fyrrnefnda tilvikinu sé um tvo lánasamninga að ræða: 1,6 milljarða króna í íslenskum krónum og allt að 10 milljónir evra, sem svara til svipaðrar fjárhæðar í íslenskum krónum talið. Lánstími er 10 til 25 ár með möguleikum á breytingum til lengingar eða styttingar lánstíma.

Hluti lánanna er vegna áfallins kostnaðar við fráveituframkvæmdirnar. Hann nemur samtals 4,3 milljörðum króna og hafi verið fjármagnaður með óhagkvæmari hætti en þau kjör sem nú sé samið um.

Þá segir að markmið samningsins um áhættuvarnir sé að draga úr áhættu OR af hugsanlegri óhagstæðri þróun þessara þátta, sem geta haft veruleg áhrif á fjárhag OR. Með samningnum dregur OR þannig úr þörf fyrir lausafé til að geta mætt óhagstæðum sveiflum.

Þá kemur fram að OR telji samningana til marks um að fjármálastofnanir innanlands og utan hafi trú á aðgerðaáætlun OR og getu fyrirtækisins til að standa við hana. Samningarnir hafa ekki bein áhrif á aðgerðaáætlun OR og eigenda frá vorinu 2011 en styrkir framgang hennar, að því er fram kemur í tilkynningunni.