„Við höfum verið að greiða allhratt af skuldunum og munum halda því áfram á næsta ári. Við getum staðið við allar okkar skuldbindingar nema eitthvað óvænt gerist,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Hann kynnti afkomu fyrirtækisins í dag en í uppgjörinu kemur fram að staðan hefur batnað mikið síðustu misserin. „Öll orka okkar hefur miðast við að ná þessu og komast í gegnum árið,“ segir hann.

Framlegð af rekstri OR nam 17,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins.

„Ef OR nýtir alla 17 milljarðana til að greiða niður skuldir þá tæki það 8,8 ár að greiða niður allar skuldir,“ segir Bjarni. Hann benti á að miðað við sömu útreikninga hefði það tekið 17,5 ár að greiða skuldirnar á árunum 2008 og 2009.

Endursamið um lán

Skuldir OR námu í lok þriðja ársfjórðungs rúmumum 229 milljörðum króna. Afborganir á næsta ári áttu að nema 30 milljörðum króna. Stjórnendur OR hafa hins vegar endursamið við erlendu bankana Dexia og Depfa um lengingu í gjalddögum. Það skilar því að afborganir lána lækka um fimm milljarða á næsta ári. Mesti kúfur afborgana verður í apríl á næsta ári eða 10 milljarðar eru á gjalddaga. Afborganir upp á fimmtán milljarða dreifast út árið.

Þegar afborganir næsta árs verða að baki standa eftir um 90 milljarðar króna sem eru á gjalddaga fram til loka árs 2018.

„Ástæðan fyrir því að samningar tókust er sú að rekstur OR er betri en áður,“ sagði Bjarni.