Það má velta því fyrir sér hvort Orkuveitan gæti farið þá leið að sækja sér fé á hlutabréfamarkað. Væri hægt að sjá fyrir sér að t.d. 35% hlutur í OR væri boðin til kaups á markaði. Núverandi eigendur héldu því á um 65% hlut, en svipað fyrirkomulag má t.d. finna í Noregi en Statoil er 67% í ríkiseigu.

Þetta segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag þar sem fjallað er um stöðu Orkuveitunnar. Þar segir að með þessu gætu núverandi eigendur létt á fjárútlátum sínum með því að fá nýja eigendur inn að hluta til. „Þessir nýju eigendur myndu eflaust veita meirihlutaeigendunum nauðsynlegt aðhald. Þetta er þó kannski fjarstæðukennt þar sem pólitískur vilji er eflaust takmarkaður.“

Í Markaðspunktum segir meðal annars:

„Fyrir stuttu síðan lág endanlega fyrir að OR myndi ekki geta endurfjármagnað þær erlendu skuldir sem eru á gjalddaga á næstunni. Sú aðgerðaáætlun sem kynnt var í síðustu viku er því sett fram út frá þeirri forsendu að OR geti mætt afborgunum sjálft án endurfjármögnunar. Í áætluninni er gert ráð fyrir að nettó vaxtaberandi skuldir OR lækki um 107 ma.kr. frá seinustu áramótum til ársloka 2016.

Það er óhætt að segja að um metnaðarfulla áætlun sé að ræða hjá OR og gangi hún eftir muni fyrirtækið standa traustum fótum.  Þó eru fjölmargir utanaðkomandi þættir sem geta sett stórt strik í reikninginn, margir hverjir sem eru ekki á valdi OR. Má þar nefna heimsmarkaðsverð á áli, vaxtaþróun erlendis, gengi krónunnar, kaupendur og söluverð á stórum eignarhlutum í Gagnaveitunni (vegur um helming í væntanlegri eignasölu). Árið 2013 eru um 30 ma.kr. á gjalddaga og skiptir því miklu máli fyrir félagið að aðgerðaáætlunin verði komin vel á veg t.d. hvað varðar eignasölu. Má segja að Orkuveitan verði hreinlega að vera búin að selja Gagnaveituna fyrir þann tíma eða á fyrri hluta þess árs, ella vantar 5 ma.kr. upp á svo dæmið gangi upp.

Þar sem fyrirtækið er með litlar sem engar gengisvarnir er ljóst að það á mikið undir því að gjaldeyrishöftin haldi og/eða að afnám gjaldeyrishafta gangi snurðulaust fyrir sig. Samkvæmt greiningu KPMG myndi 10% veiking krónunnar hafa töluverðar breytingar til hins verra fyrir OR -  handbært fé í lok árs 2016 yrði um 7 mö.kr. lægra og neikvætt um tæpa 4 ma.kr. í árslok 2013, 2014 og 2015.“