Orkuveita Reykjavíkur hefur gert samning upp á hátt á fjórða milljarð króna við Mitsubishi Corporation í Bretlandi vegna fyrirhugaðrar stækkunar Hellisheiðarvirkjunar, samkvæmt upplýsingum Eiríks Bragasonar, staðarverkfræðings við virkjunina.

Mitsubishi Corporation mun í samstarfi við japanska fyrirtækið Mitsubishi Heavy Industries Ltd og hið þýska Balcke-Dürr útvega gufuhverfla, rafala, gufuþétta og kæliturna í þann hluta virkjunarinnar sem verður stækkaður en fyrirtækin áttu einnig í samstarfi við OR vegna þess hluta virkjunarinnar sem tekinn verður í notkun í haust. Áætlað er að síðari hluti virkjunarinnar verið tekinn í notkun í tveimur áföngum, í september og nóvember 2008.

Orkan sem fæst úr Hellisheiðarvirkjun verður seld til Norðuráls og Fjarðaáls en með stækkuninni eykst vinnslugetan úr 120 í 210 MW, samkvæmt upplýsingum Guðmundar Þóroddssonar, forstjóra OR. Orkusala til álveranna vegna stækkunarinnar einnar nemur 30 milljörðum á 25 árum.

Orkuveitan hefur áður átt í samstarfi við fyrirtækin meðal annars vegna Kröfluvirkjunar og Nesjavallavirkjunar en Mitsubishi Heavy Industries hefur tekið þátt í uppbyggingu jarðvarmavera í Bandaríkjunum, Mexíkó, á Filippseyjum, Indónesíu, Nýja Sjálandi, Kostaríka, El Salvador og Kenýa.

Hellisheiðarvirkjun, sem er jarðvarmavirkjun, er á sunnanverðu Hengilssvæðinu og er framkvæmdasvæði hennar Hellisheiði og nágrenni sunnan Hengilsins. Miðað er að því að hefja rafmagnsframleiðslu í haust í tveimur 40 - 45 Mw vélasamstæðum og síðari samstæðunum tveimur haustið 2008. Þá er miðað að gangsetningu varmastöðvar sem áætlað er að afkasti allt að 400 Mwth ári síðar. Verði reynslan af nýtingu svæðisins góð er áætlað að bæta vélum við virkjunina á sama hátt og gert hefur verið í Nesjavallavirkjun.