Hæstiréttur Íslands hefur synjað Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um áfrýjunarleyfi á n iðurstöðu Landsréttar í málsókn þrotabús Glitnis vegna ágreinings um uppgjör á gjaldmiðlaskiptasamningum sem gerðir voru skömmu fyrir efnahagshrunið 2008. Við þetta ber Orkuveitu Reykjavíkur að greiða þrotabúinu um 3,5 milljarða króna, sem fellur til að mestu leyti vegna dráttarvaxta allt frá árinu 2008. OR greindi frá ákvörðun Hæstaréttar í tilkynningu.

Greiðslan fellur til vegna uppgjörs afleiðusamninga frá árunum 2002-2008. Þegar málið var höfðað í október 2012 var það mat Glitnis að OR stæði í 747 milljóna króna skuld vegna þeirra og var málið höfðað til innheimtu þeirrar upphæðar. Með dráttarvöxtum fór upphæðin upp í 3,5 milljarða króna.

Sjá einnig: OR greiði Glitni á þriðja milljarð

„Lausafjárstaða Orkuveitu Reykjavíkur er mjög sterk en greiðslan hefur áhrif á niðurstöður ársreiknings 2021, sem birtur verður snemma marsmánaðar,“ segir í tilkynningu OR.