*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 5. október 2020 16:37

OR greiði borginni um 20 milljarða

OR stefnir á að arðgreiðslur til eigenda nemi 20,7 milljörðum til 2026. Heita vatn og rafmagn hækki um 6,7 milljarða.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar OR eru á Höfða.
Haraldur Guðjónsson

Orkuveita Reykjavíkur gerir ráð fyrir því að afkoma félagsins muni halda áfram að batna til ársins 2026 í nýrri fjárhagsáætlun sem nær til þess árs, á sama tíma og tekjur vegna rafmagns- og heitavatnssölu aukist. Á tímabilinu er gert ráð fyrir að arðgreiðslur til eigenda nemi 20,7 milljörðum króna, sem þýðir að þar sem Reykjavíkurborg á 93,54% í félaginu fái borgin tæplega 19,4 milljarða.

Þannig gerir áætlunin ráð fyrir að félagið skili 15,1 milljarði króna afkomu árið 2026, en þá verði tekjur vegna rafmagnssölu búin að hækka um 3,7 milljarða, eða 15,6%, og tekjur vegna heitavatnssölu verði búin að hækka um 3 milljarða, eða 18,4%. Samanlögð hækkun þessara liða til viðskiptavina, það er fyrirtækja og heimila, mun því nema samtals um 6,7 milljarða þegar komið verði fram á árið 2026.

Á sama tíma gerir áætlunin ráð fyrir að rekstrarkostnaður samstæðunnar, án afskrifta, aukist á tímabilinu frá 2021 til 2026 um 3,7 milljarða, eða 16,3%, sem að mestu megi rekja til verðlagsbreytinga. Þannig muni tekjurnar fara úr því að nema 46,6 milljörðum í ár í 60,2 milljarða árið 2026, meðan rekstrargjöldin hækki úr 18,4 milljarða í ár í 22,9 milljarða árið 2026.

Afkoma þessa árs er áætluð 8,1 milljarður, en fari svo í 11 milljarða á næsta ári, 10,7 milljarða árið 2022, 11,8 milljarða árið 2023, 12,6 milljarða árið 2024, 13,5 milljarða árið 2025 og eins og áður segir 15,1 milljarð árið 2026.

Á sama tíma er gert ráð fyrir því að eignir muni hækka á næstu árum vegna aukinna fjárfestinga í veitukerfum, og samhliða verði haldið áfram að greiða niður skuldir. Þannig muni eiginfjárhlutfallið halda áfram að styrkjast jafnt og þétt á áætlunartímabilinu 2021 til 2026, frá því að vera 51,2% í árslok 2021 til 61,1% í árslok 2026.

Gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok 2026 verði 2,7 milljarðar króna, en 12,5 milljarðar króna að meðtöldum bundnum innstæðum og markaðsverðbréfum. Árlegar afborganir skulda eru áætlaðar á milli 15,2 – 19,1 milljarður króna á árunum 2021 - 2026, samtals um 101,0 milljarður króna. Lántökur eru áætlaðar 53,4 milljarðar kr. á tímabilinu.

Á sama tíma er gert ráð fyrir að félagið fjárfesti fyrir 107,9 milljarða króna, þar af 68,7 milljörðum króna í veitukerfi, 28,1 milljarð í virkjanir, og 11,1 milljarð í aðrar fjárfestingar. Arðgreiðslur til eigenda eru áætlaðar 20,7 milljarðar króna á tímabilinu. Nettó vaxtaberandi skuldir lækka svo um 26 milljarða króna frá árinu 2021 til 2026 samkvæmt fjárhagsspánni.

Stikkorð: OR afkoma fjárhagsáætlun