Orkuveita Reykjavíkur var í Héraðsdómi Reykjavíkur rétt í þessu dæmd til að greiða Glitni HoldCo ríflega 740 milljónir króna auk dráttarvaxta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá OR en dómurinn hefur ekki verið birtur. Ljóst er hins vegar að kostnaður OR er nokkuð meiri en eingöngu 740 milljónir króna.

Á árunum 2002 til 2008 gerðu Glitnir og OR fjölmarga afleiðusamninga sín á milli en nákvæmur fjöldi samninga er 596. Enn eru óuppgerðir átta slíkir samningar, þrír samningar með framvirk gjaldmiðlaviðskipti og fimm vaxtaskiptasamningar, sem eru þrætuefni málsins. Þegar málið var höfðað í október 2012 var það mat Glitnis að OR stæði í 747 milljóna króna skuld vegna þeirra og er það dómkrafa málsins. Málið nú var höfðað til innheimtu þeirrar upphæðar.

Samkvæmt dómsorði ber OR að greiða þá upphæð en þá eru dráttarvextir ekki meðtaldir. Stærstur hluti upphæðarinnar hefur mallað á dráttarvöxtum allt frá því í október 2008 og því ljóst að endanleg fjárhæð mun umtalsvert hærri. Við það bætist málskostnaður samkvæmt dómsorði, 15 milljónir króna, málskostnaður OR vegna starfa lögmanns félagsins í málinu og kostnaður vegna matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Samkvæmt úrskurði Landsréttar frá síðasta sumri, þar sem deilt var um hæfi matsmanna, nam þóknun til matsmanna vegna starfa þeirra 190 milljónum króna að virðisaukaskatti meðtöldum.

Uppfært 15.53: Slumpdráttarvaxtarútreikningar blaðsins sýna að dráttarvextirnir geri eilítið meira en að ýta upphæðinni yfir milljarð króna. Hið rétta er að krafan er nú nær því að vera þrír milljarðar króna. Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt í samræmi við það.

„Dómurinn virðist ekki hafa tekið tillit til helstu sjónarmiða Orkuveitu Reykjavíkur í málinu. Þau eru annarsvegar að þrotabú Glitnis, sem stefndi OR, eigi ekki aðild að málinu þar sem slitastjórn bankans framseldi íslenska ríkinu kröfuna árið 2016. Þá var af hálfu OR lögð fyrir dóminn matsgerð þar sem niðurstaðan er sú að bankinn hafi í raun verið ógjaldfær þegar í janúar 2008 og samningarnir þá gjaldfallið,“ segir í tilkynningu OR.

Varúðarfærsla, jöfn höfuðstól kröfunnar, hefur verið færð til bókar í ársreikningum OR. Í tilkynningunni segir að OR hafi falið lögmanni sínum að undirbúa áfrýjun til Landsréttar og að fjárhæðin muni ekki verða greidd Glitni fyrr en að æðri dómstig, það er Landsréttur og eftir atvikum Hæstiréttur, hafa kveðið upp sinn dóm.