Tillaga stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um að enginn arður verði greiddur fyrir síðasta rekstrarár var samþykkt á aðalfundi fyrirtækisins í dag. Tillagan er í samræmi við aðgerðaáætlun félagsins frá því í mars 2011. Þá var samþykkt tillaga um að stjórnarlaun ársins 2012 verði 125 þúsund krónur á mánuði fyrir aðalmann og tvöföld sú fjárhæð fyrir formann.

Aðalfundur OR var haldinn í dag, þar sem Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður, flutti skýrslu stjórnar og lagði fram ársskýrslu fyrir síðasta ár og umhverfisskýrslu. Fram kemur í fundargerð að Flosi hafi einnig nefnt að yfirferð endurskoðunarnefndar stjórnar á skýrslu úttektarnefndar eigenda væri væntanleg og að stjórn væri langt komin með að uppfylla allar kröfur.