Orkuveitan greiddi í dag stærstu afborgun í sögu fyrirtækisins, að því er segir í tilkynningu frá OR. Afborgunin nam um 67 milljónum evra, sem svara til um 10 milljarða króna. Lánveitandinn er Dexia Crédit Local. Eitt af helstu markmiðum Plansins – áætlunarinnar sem Orkuveitan vinnur eftir – var að mæta þessari afborgun. Upphaflega átti hún að nema um 15 milljörðum en á síðasta ári tókst að fresta greiðslu 5 milljarða.

Þá hefur OR gert lánasamning í erlendum gjaldmiðli og áhættuvarnarsamning varðandi vexti við erlenda fjármálastofnun. Í tilkynningunni segir að markmiðið sé að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækisins og draga úr áhættu. Vonast er til að ljúka samningum af svipuðum toga við íslenska banka og hefur stjórn Orkuveitunnar þegar samþykkt slíka samninga af sinni hálfu og er unnið að frágangi þeirra.

Í tilkynningunni er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, að um þáttaskil sé að ræða. Í fyrsta lagi hafi Orkuveitan nú greitt hæstu afborgun af lánum sem fyrirtækið stóð frammi fyrir. Árangur Plansins hafi gert þetta kleift. Í öðru lagi njóti Orkuveitan nú trausts á alþjóðlegum lánamarkaði á ný.