Dreifikostnaður rafmagns hjá Veitum lækkar lítillega nú um áramótin. Ástæðan er lækkun flutningshluta verðsins, sem Veitur innheimta fyrir Landsnet segir í fréttatilkynningu frá dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur. Félagið er að stærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar.

Veitur lækkuðu sinn hluta verðsins 1. janúar 2017 um 5,8% og aftur 1. nóvember um 7,5% en í millitíðinni hafði flutningshlutinn reyndar hækkað. Lækkunin nú nemur tveimur aurum á hverja kílóvattstund.

Verðskrá hitaveitu Veitna hækkar um 1%. Það er um það bil helmingi minna en sem nemur verðbólgu á árinu 2017. Hitaveitur Veitna eru umfangsmesta þjónusta fyrirtækisins og um tveir af hverjum þremur landsmönnum fá heitt vatn úr þeim segir í tilkynningunni.

Langstærst er hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu en aðrar hitaveitur eru á svæðinu frá Stykkishólmi í vestri austur á Hvolsvöll. Veruleg lækkun var á verði kalda vatnsins frá Veitum fyrir ári, eða víðast um rúm 11%. Nú hækkar verðið í samræmi við hækkun byggingarvísitölu á árinu, eða um 4,5%. Hið sama gildir um fráveitugjaldið.