Orkuveita Reykjavíkur (OR) hagnaðist um tæpa 4,2 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er viðsnúningur upp á í kringum átta milljarða króna en á sama tíma í fyrra var um 4 milljarða króna tap af rekstri OR. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir í uppgjörstilkynningu að þó farið sé að glitta í heiðan himin er reksturinn ekki kominn á lygnan sjó. Hann bendir á að aðgerðaáætlun sem sett var í gang fyrir rúmum tveimur árum og nefnist Planið hafi staðist að mestu leyti og gott betur.

Rekstrarhagnaður OR fyrir fjármagnsliði (EBIT) fyrstu þrjá mánuði ársins nam 5,1 milljarði króna en var 4,9 milljarðar fyrir ári. Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður fyrstu þrjá mánuði ársins lækkaði um 8,4% frá fyrra ári. Sparnaður og aðhald í rekstri og tekjur sem halda verðgildi sínu eru því skýringar þessa stöðugleika í rekstrarafkomu OR. Framlegð reksturs samstæðu OR (EBITDA) á fyrsta fjórðungi í ár nam nam 7,3 milljörðum króna en var 7,2 milljarðar á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs. Ytri áhrifaþættir – gengi, álverð og vextir – hafi nú jákvæð áhrif á afkomuna en þau voru neikvæð á sama tímabili í fyrra. Niðurstaða fyrsta ársfjórðungs í ár er því hagnaður sem nemur 4,2 milljörðum króna.

Fram kemur í uppgjörinu að áfram er lögð áhersla á niðurgreiðslu skulda og hafa þær lækkað um 10,5 milljarða króna frá í fyrra. Með bættri rekstrarafkomu og festu við að framfylgja Plani OR og eigenda fyrirtækisins er  aðgangur fyrirtækisins að íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum nú smám saman að opnast. Það hefur gert fyrirtækið betur í stakk búið til að verja sig fyrir sveiflum í ytri áhrifaþáttum rekstursins; gengi krónunnar, vöxtum og álverði.

Heildarárangur Plansins á fyrsta ársfjórðungi 2013 nam 6,7 milljörðum króna, sem er 700 milljónum króna umfram markmið. Allir þættir þess voru á áætlun eða umfram hana á ársfjórðungnum. Aðgerðaáætlunin, sem stjórn Orkuveitunnar og eigendur fyrirtækisins réðust í vorið 2011, hefur nú skilað fyrirtækinu 30,5 milljörðum króna betri sjóðsstöðu en verið hefði að óbreyttu. Sé litið til heildarárangurs Plansins frá upphafi er árangurinn af því 2,4 milljarða umfram markmið. Allir þættir eru á áætlun eða umfram hana nema sala eigna.