Samstæða Orkuveitu Reykjavíkur hagnaðist um fimm milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

Heildarafkoma samstæðunnar á tímabilinu nam 6,5 milljörðum króna. Þannig námu rekstrartekjur samstæðunnar 28,6 milljörðum króna og jukust þær um 2,6 milljarða milli ára. Tekjur af raforkusölu til stóriðju hækkuðu og notkun á rafmagni og köldu vatni á almennum markaði jókst á milli ára.

Í árshlutareikningnum segir að aukin verðbólga á árinu hafi leitt til hærri fjármagnskostnaðar. Auk þess hafi hækkun á innfluttum aðföngum og verktakakostnaði aukið viðhaldskostnað og leitt til hærri fjárfestinga.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar á fyrstu sex mánuðum jókst um einn milljarð á milli ára og nam 18 milljörðum króna. Hærri fjármagnskostnaður og breytingar á stærðum tengdum álverði varð þó til þess að hagnaður félagsins lækkaði um 3,8 milljarða á milli ára, og nam 5 milljörðum á fyrri hluta árs.

Þriggja milljarða dómsmáli lokið

Dómsmáli vegna uppgjörs gjaldmiðlasamninga frá árinu 2008 lauk á fyrri hluta ársins. Þá var OR gert að greiða þrotabúi Glitnis liðlega þrjá milljarða króna. Niðurstaðan var færð til gjalda á árinu 2021 en greidd á yfirstandandi ári sem dregur úr handbæru fé frá rekstri á fyrstu sex mánuðum ársins.

Eignir samstæðunnar námu 416 milljörðum króna og eigið fé 220 milljörðum. Eiginfjárhlutfall OR var 52,9% á fyrri hluta árs.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR:

„Þetta eru svolítið óvenjulegir tímar í rekstri. Yfir standa miklar fjárfestingar, einkum í veitukerfunum, og það er mikill þrýstingur á að halda þeim áfram, ekki síst vegna áherslna sveitarfélaga og ríkisins á aukið framboð íbúðarhúsnæðis. Af þessari ástæðu er verktakamarkaður spenntur og lægstu tilboð í verk hjá okkur stundum tugum prósenta yfir kostnaðaráætlunum. Á sama tíma hafa vextir hækkað mjög skarpt sem ætti, að öðru jöfnu, að letja okkur til fjárfestinga.

Við hjá Orkuveitunni munum áfram kappkosta að taka þátt í nauðsynlegri uppbyggingu. Þótt það sé vissulega dýrara nú en oft áður er fjárhagur Orkuveitunnar traustur. Þess vegna höfum við burði til að styðja við öfluga húsnæðisuppbyggingu og orkuskipti í samgöngum, enda er loftslagsváin ekki á förum.“