Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) skilaði 838 milljóna króna hagnaði á öðrum fjórðungi ársins, samkvæmt árshlutauppgjöri sem samþykkt var af stjórn fyrirtækisins í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá OR en þetta er verulegur viðsnúningur frá fyrstu þremur mánuðum ársins þegar gengisfall íslensku krónunnar olli 17,2 milljarða króna tapi. Þá kemur fram að horfur í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2008 eru góðar.

Orkuveita Reykjavíkur var engu að síður rekin með 16,4 milljarða króna halla fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 8.198 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið áður.

Í tilkynningunni segir að óhagstæð gengisþróun skýrir niðurstöðuna að öllu leyti.

Tekjur fyrirtækisins jukust um 919 milljónir miðað við sömu mánuði ársins 2007. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, var 5,8 milljarðar króna samanborið við 5,3 milljarða króna rekstrarhagnað á sama tímabili árið áður.   Rekstrartekjur fyrstu sex mánuði ársins námu 11.369 milljónum króna en voru 10.450 milljónir króna á sama tímabili árið áður.   Hagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, var 5.816 milljónir króna samanborið við 5.325 milljónir króna á sama tímabili árið áður.   Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 22.187 milljónir króna á tímabilinu, en voru jákvæðir um 7.500 milljónir króna á sama tímabili árið 2007.   Heildareignir þann 30. júní 2008 voru 218.265 milljónir króna en voru 191.491 milljón króna í árslok 2007.   Eigið fé þann 30. júní 2008 var 71.798 milljónir króna en var 88.988 milljónir króna í árslok árið 2007.   Heildarskuldir fyrirtækisins þann 30. júní 2008 voru 146.467 milljónir króna samanborið við 102.503 milljónir króna í árslok 2007.   Eiginfjárhlutfall var 32,9% þann 30. júní 2008 en var 46,5% í árslok 2007.   Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld voru neikvæð um 22,2 milljarða króna samanborið við 7,5 milljarða króna hagnað fyrir sama tímabil árið 2007. Neikvæð staða vegna gengismunar og gjaldmiðlasamninga nam 30,4 milljörðum króna á tímabilinu en gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum skiluðu 11,0 milljarða króna hagnaði á sama tíma.